Nú fer þessu óvenjulega skólaári senn að ljúka.
Ég vil byrja á að hrósa nemendum, foreldrum og kennurum fyrir gott samstarf og umburðalyndi. Þessi fjarkennsla hefði aldrei gengið nema fyrir jákvæðni og samviskusemi ykkar. Umsagnir kennaranna um fjarkennsluna voru mjög jákvæðar. Kom þeim sérstaklega á óvart hvað nemendur voru fljótir að aðlaga sig aðstæðunum.
En það verður að segjast eins og er að kennararnir eru óskaplega ánægðir að geta aftur kennt nemendunum í skólanum.

Lok skólaársins verða með breyttu sniði þetta árið. Við munum t.d. ekki halda skólaslit í Grensáskirkju eins og venja er og almennir vortónleikar falla niður. Okkur finnst óþarfi að smala saman öllum nemendum, foreldrum og kennurum á einn stað, svona á meðan við erum að kveða niður þennan vírus.

Í staðinn verða hinir venjubundnu kennaratónleikar þar sem nemendur hvers kennara koma saman og spila og syngja. Þar mun gefast kostur á að afhenda vetrarumsögn kennara og prófskírteini þar sem það á við.
Til að halda sem mestu bili milli áheyrenda viljum við biðja ykkur um, ef kostur er, að ekki komi fleiri en tveir með hverjum nemanda. Upplagt væri að sá sem mætir á tónleikana taki upp flutning síns listamanns á símann sinn svo hann geti leyft stórfjölskyldunni að njóta við næsta tækifæri.

Staðfesting fyrir næsta skólaár

Nú hafa borist óvenju margar nýjar umsóknir í skólann. Til að geta fyllt í laus pláss þurfum við að biðja ykkur um að staðfesta sem allra fyrst áframhaldandi skólavist. Í síðasta lagi 22.maí.
Eins og áður eruð þið beðin um að staðfesta með því að millifæra 10.000kr. inn á reikning skólans:

0101-26-782828 Kennitala:420179-0229

Vinsamlegast ritið nafn nemandans í „athugasemdir“

Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu og vonast til að sjá ykkur sem flest í haust.

Gleðilegt sumar!
Sigurður Sævarsson, skólastjóri