Dagana tvo fyrir skólaslitin, miðvikudaginn og fimmtudaginn 22. og 23 maí, verða opnar vinnusmiðjur fyrir alla hljóðfæra- og söngnemendur, frá kl.16-18 báða dagana. Nemendur geta þá valið sér annan hvorn daginn, já eða báða dagana ef þeir vilja. Leiðbeinandi verður Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, kennari við Guildhall School of Music and Drama. Hún stýrir skapandi tónlistar- og tónsmíðanámskeiðum við tónlistarháskóla og við hinar ýmsu samfélagslegu aðstæður víða um heim og verður hér á landinu í enda maí. Gefum Sigrúnu orðið:

Í vinnusmiðjunum munum við vinna með spuna, leiki og skemmtileg tónsmíðaferli til þess að búa til okkar eigin tónsmíð, öll saman í einni stórri hljómsveit! Við getum unnið með hvaða hljóðfærum sem er, en einnig verður hægt að koma sem söngvari. Markmiðið er að hafa gaman og leika okkur með hugmyndir og hljóðfæri og sjá hvað verður til á einungis tveimur klukkustundum.